Grein eftir Jens Einarsson. Birt í Eiðfaxa 2002
Að eiga fá hross en góð
– Spjallað við Gísla Haraldsson á Húsavík
Gísli Haraldsson á Húsavík var kjörinn ræktunarmaður ársins 2002 hjá Hrossaræktarsambandi Eyfirðinga og Þingeyinga. Gísli hlaut ekki þessa viðurkenningu fyrir fjölda fram kominna hrossa úr hans ræktun, heldur miklu fremur fyrir þá stefnu að rækta fátt en gott. Það má með sanni segja að honum hafi tekist það með því að rækta eitt athyglisverðasta kynbótahross ársins, Hraunu frá Húsavík. Hún var sýnd í forskoðun í vor en náði ekki einkunn inn á landsmót. En áhorfendur og dómarar á síðsumarssýningu á Gaddstaðaflötum tóku heldur betur kipp þegar hún kom í brautina undir styrkri stjórn Þórðar Þorgeirssonar, kynbótaknapa ársins. Eftir þá sýningu þarf enginn að velkjast í vafa um að fram er komin ein athyglisverðasta kynbótahryssa síðari ára, bæði að útliti, skörungsskap og hæfileikum. En hver er þessi Gísli og hver er hans saga í hrossarækt?
Íþróttakennari og hestamaður
Gísli er fæddur og upp alinn Húsvíkingur. Faðir hans var Haraldur Gíslason frá Haugi í Flóa, bróðir Gísla Gíslasonar, föður Ingibjargar Sólrúnar borgarstjóra í Reykjavík. Móðir hans er Valgerður Sigfúsdóttir frá Vogum í Mývatnssveit. Gísli er íþróttakennari að mennt og kennir nú við Hafralækjarskóla í Aðaldal. Foreldrar Gísla voru ekki hestafólk en Haraldur gaf þeim bræðrum, Gísla og Stefáni hest þegar áhugi þeirra kviknaði á hestamennsku. Áhuginn á hrossarækt kom svo í framhaldinu og tók hug hans allan.
„Ég byrjaði í hrossarækt í kring um 1980, þá með hryssuna Kviku frá Úlfsstöðum í Skagafirði. Hugmyndin var að rækta hross út af Goða 472 frá Álftagerði. Eyfirðingar voru þá að fá góð hross undan Eyfirðingi frá Akureyri, syni hans, og mér leist vel á þau sem reiðhross. Kvika var töluvert út af þessari ætt. Undan henni fékk ég m.a. stóðhestinn Sirkus frá Húsavík, sem var undan Hrafni frá Holtsmúla. Hann fékk slétta 8.0 í aðaleinkunn á Melgerðismelum 1985. Undan Kviku fékk ég einnig hryssuna Ólgu, sem var undan Ófeigi frá Flugumýri. Hún fór í 1. verðlaun 1991, fékk m.a. 9,0 fyrir háls og herðar og 8,5 fyrir skeið, geðslag og fegurð í reið. Ég keppti líka dálítið á henni á A-flokki, þetta var býsna góð hryssa, en ég seldi hana fyrir ári síðan. Undan henni fékk ég hryssuna Dorru frá Húsavík, undan Þorra frá Þúfu, og hún fékk 1. verðlaun síðastliðið sumar.
Vaka móðir meistara
Næst inn í ræktunina var hryssan Vaka frá Brennigerði [8.21] í Skagafirði, en hún var einnig af Goða línunni, undan Hrafni frá Holtsmúla og Mósu frá Brennigerði, fyrstu verðlauna hryssu sem var undan Moldu frá Hellisholtum, Blakksdóttur 129 frá Árnanesi, og bróður sínum, Goða frá Álftagerði, sem var einnig undan Moldu. Mósa var með 8,28 í aðaleinkunn, þar af 8,50 fyrir byggingu og 9,0 fyrir tölt.
Undan Vöku er Höfði frá Húsavík, sem var einn aðal keppnishestur Sigurbjörns Bárðarsonar um árabil. Á honumvarð Sigurbjörn heimsmeistari í fimmgangi og gæðingaskeiði og auk þess samanlagður sigurvegari á HM 1993 í Hollandi. Sá árangur átti hvað mestan þátt í að Sigurbjörn var kjörinn íþróttamaður ársins á Íslandi það ár. Vaka er einnig móðir Amals frá Húsavík, sem hefur vakið athygli fyrir mikið fas og fótaburð og varð m.a. í öðru sæti á Ístölti í Skautahöllinni árið 2000. Sigurbjörn keypti þennan hest af mér og seldi hann síðan Hallgrími Jóhannssyni í Keflavík. Undan henni er einnig stóðhesturinn Eldur frá Húsavík, Hervarssonur. Hann er nú á Störtal í Þýskalandi og hefur hlotið 1. verðlaun og varð Norður-Þýskalandsmeistari í tölti 1995, svo eitthvað sé nefnt. Síðasti stóðhesturinn undan Vöku er Hrafnar frá Húsavík, undan Hrannari frá Höskuldsstöðum, en hann hefur vakið verulega athygli sem klárhestur í Þýskalandi undanfarin tvö ár.
Urð frá Hvassafelli
Sú hryssa sem Gísli leggur áherslu á að rækta undan er þó ekki komin út af þeim tveimur sem áður eru nefndar, þótt þær hafi reynst vel. Fyrir tilviljun sáu þeir bræður, hann og Stefán, gullfallegt merfolald í stóðrétt í Eyjafirði. Svo virðist sem þeim hafi verið það ætlað af æðri máttarvöldum því það var lofað öðrum þegar þeir föluðust eftir því.
„Við eigum Urð saman ég og Stefán bróðir minn, keyptum hana á Hvassafelli í Eyjafirði 1984. Við sáum hana fyrst í Borgarrétt í Saurbæjarhreppi, hún var að koma af fjalli. Þetta var einstaklega fallegt og myndarlegt folald, bar af öðrum í réttinni. Við föluðum hana af Einari Benediktssyni sem þá var hættur búskap á Hvassafelli, en hún var ekki til sölu, hann var búinn að lofa henni manni sem leigði af honum jörðina. Rétt fyrir áramót hitti ég Einar í ríkinu á Akureyri þar sem hann vann, og þá gaf hann trippið falt ásamt öðru mertrippi, jörpu, jafngömlu. Það höfðu ekki gengið saman með þeim kaupin. Við keyptum báðar hryssurnar á staðnum en seldum þá jörpu fljótlega, hún verð mjög góð, fór í fyrstu verðlaun fyrir hæfileika. Síðan hugsa ég alltaf hlýlega til áfengisverslunarinnar á Akureyri, þótt það sé ekki endiilega vegna þess að mig langi að kaupa eitthvað þar“.
Undan stóðhesti aldarinnar
Urð er undan „stóðhesti aldarinnar“, eins og hann var lengi kallaður, Hraunari frá Sauðárkróki, sem var undan Ófeigi frá Flugumýri og Hrafnkötlu frá Sauðárkróki. Hraunar drapst ungur en undan og út af honum eru komin allmörg verulega góð hross, s.s. Kolgrímur frá Kjarnholtum, Kolskeggur frá Ásmundarstöðum, Örn frá Akureyri og Von frá Bjarnastöðum, móðir Markúsar frá Langholtsparti. Móðir Urðar var Muska frá Hvassafelli, undan Náttfara frá Ytra-Dalsgerði. Muska var tamin og sýnd og fékk þokkalegan dóm.
En hvernig gekk fyrir sig uppvöxtur og tamning á Urði?
„Hún átti slysafolald tveggja vetra, Ófeig frá Húsavík. Hún var þá fullvaxin og virtist ekki taka þetta nærri sér. Hún var alin í fjósinu hjá Guðmundi í Garði í Aðaldal og þá um veturinn og hann gaukaði að henni mjólkurfötu við og við. Ég byrjaði að temja hana á fjórða vetur en þá reyndist hún aftur með slysafang. Hún kastaði um vorið og úr því varð þokkalegur reiðhestur sem ég seldi. Stefán Friðgeirsson á Dalvík tamdi svo Urði á sjötta vetur og sýndi hana um vorið. Hún fékk ágætann dóm miðað við það sem á undan var gengið, stór hryssa og vantaði meiri vöðvafyllingu. Það kom svo í minn hlut að ríða á henni árið eftir. Ég sýndi hana um vorið og þá fékk hún fyrstu verðlaun fyrir hæfileika. Síðast fór hún í dóm 1992 á héraðssýningu í Víðidal í Reykjavík, ég keppti á henni á A flokki á afmælismóti Fáks og sýndi hana í kynbótadómi í leiðinni. Urð er með 9,0 fyrir háls og herðar og fékk 9,5 fyrir fegurð í reið í kynbótadómi.“
–Hvernig er geðslag og vilji Urðar?
„Viljinn er mjög góður og skapið er mikið þegar henni er beitt. Þannig eru afkvæmi hennar líka, þegar farið er að beita þeim á skeiði þá harðna þau, verða alveg ólgandi. Það er hinsvegar hægt að láta börn á þau í annan tíma, lundin er mjög æðrulaus og traust og þau eru taugastert.“
Glæsihesturinn Ófeigur
–Á fjórðungsmóti á Vindheimamelum 1993 komst þú fram með hest sem vakti gífurlega athygli í klárhestum og var af mörgum talinn tímamóta hestur fyrir útlit og fas á tölti. Þetta var fyrsta folaldið hennar Urðar, var ekki svo?
„Jú, það var Ófeigur frá Húsavík, sem Urð átti þegar hún var tveggja vetra. Hann var undan Náttfarasyni frá Garði í Aðaldal. Urð var þar í hagagöngu. Þetta var óvenjulegur foli, gríðarlega stór og léttbyggður og með svo fallegt brjóst og fallegann háls. Jón Árni Sigfússon, frændi minn, frumtamdi hann fyrir mig. Hann var mjög þægur og auðveldur og sýndi fljótlega tölt með miklum hreyfingum. Ég tók hann svo þegar hann var á sjötta vetur. Þatta var mjög skemmtilegt verkefni, það var svo gaman að stija á honum, svo mikið fyrir framan mann. Ég tamdi hann þó ekki mikið. Síðla um sumarið fór ég með hann á firmakeppni á Einarsstöðum,, svona rétt til að prófa.“
Það stoppaði ekki síminn
„Það var svo ekki fyrr en hann var á sjöunda vetur sem ég fór að sýna honum einhvern tíma. Mér hættir nefnilega til að leggja mesta vinnu í þau hross sem eru sein til og eru með ýmis konar vandamál en læt góðu hrossin sitja á hakanum. Um vorið unnum við okkur rétt til þátttöku á fjórðungsmótinu á Vindheimamelum og þar varð hann í þriðja sæti. Brokkið í Ófeigi var ekki mjög sterkt frá náttúrunnar hendi og þurfti þjálfun, en það var auðvelt að bæta það. Til gamans má geta þess að á mótinu var hann á 6 mm skeifum að framan og með 110 gr hófhlífar. Hann var svo hágengur að hann þoldi ekki þyngri skeifur.
Þetta var einstakur hestur í útliti og það höfðu margir augastað á honum. Eftir fjórðungsmótið voru boðnar í hann 1,6 milljónir króna, það stoppaði ekki síminn. Eða eins og ein kona sagði við mig: Ég sá hann í sjónvarpinu og hélt barasta að hann ætlaði upp úr því. Ófeigur bilaði í fæti á áttunda ári og var felldur tveimur árum síðar. Það var mikil eftirsjá í honum.“
Úrvalshryssan Hrauna
Urð hefur eignast tíu afkvæmi og níu eru á lífi. Gísli á fjögur, Stefán bróðir hans á þrjú og tvö hafa þeir selt. Besta og þekktasta afkvæmi hennar er án efa Hrauna frá Húsavík, sem fékk 8,44 í aðaleinkunn á Gaddstaðaflötum sl. sumar (2002). Það duldist engum sem sá hana í sumar að hún er metfé: Fóthá, langvaxin og tíguleg að framan. Bakið er veikasti þáttur byggingarinnar, vöðvarýrt með stífan spjaldhrygg, eins og segir í dómsorði. Hæfileikarnir með því allra mesta og framgangan stórglæsileg. Gísli er þó alls ekki sammála kynbótadómurum hvað lýsingum á baki Hraunu varðar, né heldur þeirri einkunn sem Urð móðir hennar fékk, 6,5. Hann segir bakið á þeim mæðgum alls ekki stíft, þótt það sé beint, enda sjáist það best á mýktinni í hreyfingum þeirra.
Gísli lagði mikið á sig til að koma Urð undir Orra frá Þúfu, en hann hallast nú æ meir að þeirri línu í ræktuninni. „Ég sá afkvæmasýningu á Orra á fjórðungsmóti 1996 á Gaddstaðaflötum. Þá sannfærðist ég um að hann væri ótvíræður kynbótahestur og það var margt í fari þessara hrossa sem höfðaði til mín. Ég hitti Indriða Ólafsson á Þúfu á fjórðungsmótinu og fékk pláss undir hestinn. Þetta þótti óðs manns æði hér fyrir norðan. Þá kostaði tollurinn undir Orra 75 þúsund krónur og ferðalagið fram og til baka var 1400 kílómetrar, en ég ók hryssunni á kerru suður.
Um vorið fæddist bleikálótt hryssa sem ég skírði Hraunu. Folaldið var stórt og myndarlegt, með langan háls. Hún var alltaf falleg og myndarleg í uppvexti, bar af öðrum hrossum, var eiginlega eins og önnur dýrategund í hrossahóp. Bæði Urð og Hrauna voru nær fullaxnar tveggja vetra.
Auðveld í tamningu
Ég byrjaði að temja Hraunu á fjórða vetur, gerði eins og gömlu mennirnir og teymdi hana fram eftir öllum vetri. Hún var alþæg og ákveðin fram, gerði allt mjög fúslega sem hún var beðin um. Ég reið henni mest á brokki til að byrja með en hún bauð strax upp á gott tölt um leið og leitað var eftir því. Hrauna er svo stór og leggjalöng og ég fann að hún þurfti tíma til að ná valdi á hreyfingunum. Ætlunin var að sýna hana um haustið en þá var hún bitin af hesti og ég hætti að þjálfa hana. Veturinn eftir fór ég hægt og rólega af stað. Í apríl fór ég með hana á sýningu í Svaðastaðahöllina á Sauðárkróki. Hún vakti athygli og ýmisir byrjuðu að fala hana en hún er ekki til sölu, hvorki þá né nú.
Um vorið fór ég með hana í kynbótadóm og það gekk þokkalega. Hún var ekki alveg heil á fæti, hafði orðið fyrir meiðslum, og ég lagði ekki hart að henni. Hún náði hins vegar ekki einkunn inn á landsmót. Ég fór þó með hana á mótið og reið henni í hópreiðinni. Hún var í hestalátum og ég var að velta fyrir mér að halda henni undir Aron frá Strandarhöfði. En þá var hún orðin mjög góð og ég ákvað að láta það bíða. Mér fannst ekki hægt að setja hana í folaldseign með þann dóm sem hún hafði. Ég var ekki sáttur við hann, fannst að hún hefði átt að fá meira. Ég sendi hana svo suður til Þórðar Þorgeirssonar stuttu fyrir sýninguna á Gaddstaðaflötum. Hún hækkaði sig verulega í byggingu og hæfileikum og það var virkilega gaman að sjá til hennar undir Þórði.“
Til gaman látum við fylgja umsögn Þórðar um Hraunu, sem greinilega er í miklu uppáhaldi hjá honum: „Hrauna er mesti gæðingur af 5 vetra hrossi sem ég hef sest á. Gangrýmið og lundarfarið í henn er alveg einstakt og að auki er útlitið mjög gott, fóthá hryssa og glæsileg fram. Viljinn er eins og best verður á kosið, mikill og þjáll. Ég spái því að hún fái 9,30 í aðaleinkunn fyrir hæfileika ef hún verður sýnd árið 2004. Þetta er einfaldlega ótrúlegt hross.“
Gæðingadómari í áratugi
Gísli er einn af reyndustu gæðingadómurum landsins og var formaður Gæðingadómarafélags LH um skeið. Hann gók gæðingadómarapróf 1974 hjá Sigurði Haraldssyni á Kirkjubæ og Friðþjófi Þorkelssyni. Í prófinu dæmdu þeir m.a. hryssuna Ör frá Akureyri í A flokki, sem af mörgum er talið eitt mesta hestagull sem fram hefur komið.
„Hún var svo eftirminnileg að Sigurður var alltaf að spyrja um hana, átti ekki til orð yfir fegurð hryssunnar og tilþrifum hennar. Ingólfur Ármannsson, faðir Rangars á Hóli, reið henni sérstaklega fyrir okkur í prófinu. Það atvikaðist síðan þannig að Stefán bróðir minn eignaðist tvær hryssur undan henni, mjög góðar reiðhryssur.“
–Þú ert búinn að dæma á mörgum landsmótum og fjórðungsmótum og hefur oft verið þulur. Hvernig lýst þér á þróunina í gæðingadómunum?
„Það er mikil gerjun í gangi í sambandi við mótin og menn eru inn á því að gera þau skemmtilegri. Eins og fram hefur komið var ákveðið á ársþingi LH að skera stórlega niður upplestur á tölum. Það er mjög til bóta. Ég hefði hins vegar viljað sjá samþykkta tillögu um að heimilt yrði að hafa tvo gæingadómara á félagsmótum. Á Einarsstaðamótunum, sem ég tel vera í forystu á margan hátt, dæma tveir dómarar saman og gefa eina einkunn. Þetta kemur mjög skemmtilega út.“
Gott að tveir dæmi saman
–Á ársþinginu töldu ýmsir að fagmennsku væri kastað fyrir róða með því að hafa bara tvo dómara. Ertu sammála því?
„Nei alls ekki, ég hef mjög góða reysnlu af þessu fyrirkomulagi. Ég og Örn Grant höfum dæmt mikið saman á þannan hátt. Við erum að vísu búnir að vinna mikið saman, í gæðingadómum, á endurhæfingarnámskeiðum og slíku og þekkjum því hvorn annan mjög vel. Við urðum aldrei fyrir því að fólk væri óánægt. Rétt niðurstaða í gæðingakeppni er ekki tryggð með fimm eða þremur dómurum og fólk er óánægt. Það fæst ekki endilega réttari dómur með því að fjölga dómurum. Að mínu viti er betra að fá tvo góða samþjálfaða dómara. Ég hefði gjarnan viljað sjá þá tilraun á landsmótinu sem fyrirhuguð var, að þrjú tveggja dómara pör dæmdu. Ég held að það gæti komið vel út.“
Skar niður
Gísli átti 39 hross þegar flest var en á núna fjórtán. Eins og mörgum hættir til leiddi hann miðlungs hryssur sem lítið gáfu af sér. Hann ákvað því að skera niður og nú er markmiðið að rækta aðeins undan úrvals hryssum og að hafa hrossin fá. Ekki er hægt að segja annað en það hafi tekist. „Ég fæ ekki nema eitt eða tvö folöld á ári og á ekkert hross í 2001 árganginum, þannig að það hefur ýmislegt breyst. Þau hross sem ég á eru líka á öllum aldri. Til dæmis á ég tvær fullorðnar hryssur undan Vöku, ósýndar, þær eru bara ekki fulltamdar ennþá,“ segir Gísli og hlær. „Ég kalla þessar hryssur gömlu trippin.“
Ætlaði að rækta klárhest
En það eru líka spennandi trippi í uppvexti. Hann á þriggja vetra hryssu, Bjarklindi, undan Urð og Markúsi frá Langholtsparti, Orrasyni, og þar kemur Hraunar frá Sauðárkróki tvisvar inn, Hrafnkatla frá Sauðárkróki þrisvar og Síða frá Sauðárkróki sjö sinnum. Það má því segja að hún sé mikið Sveins hross. Gísli segir þetta huggulega hryssu, ekki stóra en lundgóða og með fallegan fótaburð. Þá er í hópnum folald undan Urði frá í sumar [Kamban frá Húsavík], undan Stæl frá Miðkoti, Orrasyni. Það er móálóttur hestur, myndar folald, mjög reist. „Ég ætlaði að rækta klárhest með því að leiða undir Stæl, en það er greinilega ekki á vísan að róa í hrossaræktinni því folaldið sýnir vekurð, svona getur það farið. Urð er núna fylfull við Þyrni frá Þóroddsstöðum og Stefán á það. Hann heldur töluvert upp á Laugarvatnshrossin og á tveggja vetra hryssu undan Núma frá Þóroddsstöðum og Urði.“
Hrauna er geld og verður á járnum næsta vetur hjá Gísla. Hestamenn fá því væntanlega að sjá þennan einstæða grip áður en langt um líður. Í framtíðinni munum við svo áreiðanlega sjá fleiri gæðinga undan kynvótahryssunni Urð frá Hvassafelli og dætrum hennar. Sannarlega happafengur að eignast slíkann grip.